Portfolio

Portfolio síða þar sem segir stuttlega frá verkefnum unnum í tengslum við hönnun og myndlist haustið 2018

 

Skólaverkefni haust 2018 – MA Design LHÍ

Í kúrsinum Perception undir leiðsögn Thomasar Pauz byrjaði ég að rannsaka jarðveg á höfuðborarsvæðinu í þeim tilgangi að finna jarðleir eða önnur mótanleg jarðefni.

Ég tók 5 sýni í og um kring Reykjavík, hreinsaði þau og síaði. Ég mótaði svo úr efnunum eins konar prufukubba.

Ég hef ekki enn fundið leir en hef fundið ágætlega mótanlegt efni sem ég er nú að vinna með í skúlptúra sem munu taka sér mynd samtíma haugfés. Þ.e.a.s. hugmyndun er að móta hluti úr jarðsýnunum í mynd mikilvægra hluta okkar samtíma, og er hugmyndin m.a. innblásin af greinum um fornleifafundi og kuml, hugmyndum um endingartíma efna á borð við plasts og gildismat hversdagslegra hluta í okkar menningu.

Í kúrsinum Process undir leiðsögn Garðars Eyjólfssonar var okkur sett fyrir það verkefni að rekja einhverja neysluvöru. Það leiddi mig einnig út í pælingar um alla þá hversdagshluti sem umkringja okkur og í gegn um persónulega rannsókn á þýðingu hlutanna var ég aftur leidd út í hugmyndir um mótun og keramik.

Nú er ég með í vinnslu verkefni (sem flokka mætti á ensku sem Community Outreach Project) sem vonandi verður að veruleika í nemendarýminu Rýmd í Breiðholtinu á næsta ári. Verkefnið myndi hafa fókus á að bjóða íbúum hverfisins á stutt námskeið, nokkra klukkutíma í senn, í keramiki, brauðbakstri, súrsun og gerjun grænmetis. Tími spilar meginhlutverk í verkefninu, að gefa sér tíma til að hægja á deginum og vinna saman með öðrum að sameiginlegu markmiði.

 

Verkefni tengd myndlist í vinnslu haustið 2018

Steinþrykk

Á árunum 2015-2017 sérhæfði ég mig í grafíkaðferðinni steinþrykk hjá Leicester Print Workshop í Englandi. Síðan í sumar hef ég unnið í samstarfi við prentverkstæðið í Laugarnesi og tæknimenn verkstæðis að því að koma steinþrykksaðstöðunni í nothæft stand. Í gegn um það hef ég unnið jafnt og hægt að prentverkum sem þó aðallega hafa reynst sem nokkurs konar reynsluprent nú á meðan aðstaðan er enn ekki 100% tilbúin fyrir nemendur. Í grafíkverkunum hef ég mest verið að vinna með myndheima þar sem vættir úr íslenskum þjóðsögum koma fyrir og tvinnast saman við kvenlega orku náttúrunnar.

Keramik

Ég hef í fyrsta sinn byrjað að vinna í keramiki og er þessa önn á námskeiði hjá Önnu Hallin í Myndlistaskóla Reykjavíkur. Ég hef því verið að prófa mig áfram með tækni og mismunandi þemu innan leirsins og hafa þessi kynni mín af leirlist haft sterk áhrif á þau skólaverkefni sem eru hér fyrir ofan.

Ég hef núna mjög mikinn áhuga á að demba mér dýpra í vinnslu með þessi efni, bæði leirinn og grafíkina og vinna þar verk sem tala saman. Ég hef alltaf verið mjög mikið fyrir handverk og vegur það þyngra og þyngra í minni listsköpun.

dav

 

Advertisements